Wednesday, January 11, 2017

Flugum út síðdegis þann 6. janúar.  Það er átta og hálfs tíma flug hingað niður til Orlando og því gafst nægur tími til að horfa á bíómyndir, lesa og dorma á milli.  Horfði á myndina Eiðinn sem ég hafði misst af í sumar.  Þrusugóð íslensk mynd um atburði sem enginn vill lenda í 1 

Það var notaleg molla á flugvellinum í Orlando þegar við lentum þar, náðum í bílaleigubílinn og keyrðum á hótelið.   Það heitir Hilton Grand Vacations Sea World og er eiginlega í túnfæti allra skemmtigarðanna og stærstu verslananna.  

Hryssingslegt vetrarveður tók á móti okkur þegar við komum út í morgun.  Kólnað hefur gríðarlega í nótt og hitinn er undir 10 gráðum.    Hér eru allir að krókna og grínast með það að veturinn hafi brostið á eins og hendi hafi verið veifað og að hann muni standa í tvo daga.   Á hótelinu er afskaplega fallegur sundlaugagarður með heitum pottum laugum fossum og fleiru en það er útilokað að njóta hans eins og veðrið er núna.  Ákváðum að vera inni eins og hægt væri og fórum því í Orlando eye sem er afar stórt parísarhjól svipað því sem er í London, nema bara stærra...  Úr hjólinu var feykimikið útsýni yfir Orlando svæðið og var merkilegt að sjá hversu grænt og gróðursælt þetta vinsæla svæði er.   Risastórar og ankannalegar byggingarnar teygja sig síðan á stöku stað uppúr trjánum og minna helst að austantjalds hallir nútímans. 
Fórum einnig á Sealife sem er skemmtileg sjávardýrasýning þar sem allt er innandyra sem betur fer.  Madame Tussaud var síðan klassísk skemmtun en það er alltaf gaman að skoða þessar ótrúlega vel gerðu eftirlíkingar af fræga fólkinu.

Um kvöldið fórum við síðan á sýningu á Cirque d´Soleil sem var öldungis frábær.  Eini gallinn var að við vorum svo hrikalega þreytt og haldin tímavillu að við áttum í mesta basli með að halda okkur vakandi - misstum af of miklu í fyrri helming sýningarinnar en vorum aðeins betur upplögð undir lokin --  lærðum af þessu að ætla ekki að gleypa heiminn á fyrsta degi ! ! ! 

Annar dagur í Orlando var alveg jafn skítkaldur og hinn fyrri og því ákváðum við að eyða honum í premium outlet !  Klikkaði ekki frekar en fyrri daginn :-)

Brunuðum síðan af stað á þriðja degi út á Cape Canaveral þar sem við heimsóttum NASA space center.  Mæli með því og sérstaklega rútuferðinni út að skotpöllunum.  Hefði ekki viljað missa af þessu.  Það kryddaði siðan ferðina að sjá krókódíl, armadillo og skalla örn -  hér er mikil fjölbreytni í dýraríkinu og maður er sérstaklega varðaður við krókódílum sem eru hér í hverri tjörn.  Réttara reyndar er að tala um alligators þó ég sjái nú ekki muninn. 
Fórum í myrkri frá Kennedy space center en við vorum búin að panta hótel í Port Canaveral sem er í um klukkutíma akstursfjarlægð.  Á leiðinni fór Lárus eitthvað að fikta í baksýnisspeglinum og ýtir þar á alla takka.  Eins og við manninn mælt vorum við komin í beint samband við 911 - konu sem ætlaði aldrei að trúa því að það væri ekki eitthvað að hjá okkur úr því við hringdum úr neyðarsíma bílsins og svo sá hún að við vorum á goverment property og ekki jók það nú vinsældir okkar !  En þó að það hafi nú tekið tímann sinn að losna við manneskjuna úr símanum þá verð ég að viðurkenna að þetta var hrein snilld - með einum takka inn í bílnum fáum við samstundis samband við 911 ef eitthvað gerist, frekar traustvekjandi ! 

Hótelið á Cape Canaveral var á margan hátt fínt en hentaði okkur ekki !  Illa einangrað herbergi og gangstétt beint fyrir framan gluggana þar sem gestir drógu töskurnar sínar allan tímann með tilheyrandi skarkala og látum.  Fékk alveg nýja sýn á þrautir miðborgarbúa í Reykjavík eftir þetta.   EN þar sem þetta var bara ein nótt þá var svo sem hægt að umbera drykkjulæti ungmenna sem öll eyddu dögunum við brimbretti á ströndinni og fjör á kvöldin ! 

Daginn eftir fórum við niður á Cocoa beach og heimsóttum meðal annars RonJon surf shop sem er ótrúlega glæsileg.  Þarna sá ég Elvar og vini hans fyrir mér enda allt þetta dót sérstaklega ætlað ævintýramönnum, brimbrettaköppum og siglingamönnum.
Dóluðum okkur niður eftir A1A sem tók dágóðan tíma enda sveitavegur.  Heimsóttum á leiðinn Mel Fisher treasure museum sem var upplifun !  Hér er nefnilega verið að vinna sig í gegnum Eyewitness guide of Florida og því nóg um að vera :-)

Hér þurfum við helst að vera komin í náttstað fyrir kl. 17:30 því um kl. 18 er orðið aldimmt og frekar leiðinlegt að vera að leita að gististað eftir það!   En núna erum við á fínu hóteli í Vero Beach sem við náðum að vera komin á fyrir myrkur.   

Það er á ströndinni svo að í dag nutum við þess að liggja í sólbaði, lesa og slaka á.  Ég er að lesa Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og er afar hrifin.  Það er líka ótrúlega skemmtilegt að lesa bók sem gerist í Hveragerði og segir sögur af og um einstaklinga sem maður þekkir.  
Lalli er auðvitað strax kominn með lit enda harðneitar hann að bera á sig sólvörn.  Ég smur mig aftur á móti inn í vörn númer 30 og fékk því eingöngu lit þar sem ég gleymdi svæðum.  Það er frekar kjánalegt á að líta þar sem ég var greinilega frekar flaustursleg með sólvörnina í morgun...

Á morgun ætlum við að keyra sem leið liggur eftir hraðbrautinni niður fyrri Miami og reyndar eins langt og við komumst fyrir myrkur.  Þar eigum við eftir að finna hótel en það hlýtur að reddast !

No comments:

Post a Comment