Saturday, January 14, 2017

Hér er sofnað snemma og vaknað snemma enda þýðir ekkert annað því dagarnir eru eitthvað svo stuttir í annan endann.   Hér sest sólin rétt fyrir kl. 18 og þar með verður aldimmt.  Veitingastaðirnir  loka um kl. 22 og eftir það eru bara barirnir opnir og það er nú frekar lítið spennandi fyrir pæne mennesker sem eru bara tvær á ferð  :-)

Lögðum frekar snemma af stað frá Islamorada þar sem Creekside Inn var hið ágætasta hótel. Byggðin varð sífellt strjállri og minni um sig eftir því sem við fórum lengra út á rifin. Sum staðar bara ein röð af húsum meðfram veginum sitt hvoru megin og síðan hafið  eftir það.  Sums staðar bara tré beggja vegna og sum staðar bara sjórinn og vegurinn.  Óneitanlega svolítið skrýtin tilfinning og virkar eins og maður sé að keyra beint út á opið ballarhafið...

Dóluðum þetta og stoppuðum víða á leiðinni ef við sáum eitthvað sniðugt.  Á einum stað gat maður gefið risa fiskum sem minntu helst á hákarla og stukku þeir uppúr vatninu til að grípa fiskana sem þeim voru réttir.  Vöktu mikla lukku rétt eins og pelikanarnir sem þarna voru út um allt.

Gengum síðan dágóðan spöl eftir "The seven mile bridge"  þeirri eldri sem byggð var 1912.  Það er stranglega bannað að ganga eftir þeirri nýju og hér fer maður eftir reglunum ...
Þessi brú var talin með undrum veraldar og oft sem hið áttunda þegar hún var byggð enda með öllu óskiljanlegt hvernig farið var að því með þeim tólum og tækjum sem þá voru til,  Þarna var fullt af fólki að veiða á stöng af brúnni en það er aðal sportið hér um slóðir.

Komum til Key West síðdegis og röltum um miðbæinn sem er afar skermmtilegur.  Þetta virðist vera einstaklega líflegur og fallegur bær - afar ólíkur öllu öðru hér í Flórída.  Borðuðum á kúbönskum stað í kvöld.  Mér finnst þetta afar gott en Lárus hefur litla þolinmæði gagnvart grænmeti og baunum, hvað þá yuccu og plantain (litlum grænum bönunum) sem tilheyrir oft mat frá Kúbu.

No comments:

Post a Comment