Thursday, January 19, 2017

Í Orlando var ég búin að finna annað hótel en það sem við höfðum verið á fyrstu dagana.  Ánægt með það enda bæði hagstæðara og betra á allan hátt.  Ég er klárlega búin að fá rækilega áminningu um að það borgar sig að skipuleggja sig betur heldur en núna var gert.  En í staðinn þá var þessi rúntur um Flórída ansi spontan sem líka er skemmtilegt  !  !

Eyddum heilum degi í skemmtigarði Universal sem var eiginlega miklu skemmtilegra en ég átti von á.  Fórum fyrst í Universal Studios þar sem meira er gert úr kvikmyndatengingunni.  Þetta er auðvitað alveg einstaklega vel gert og skipulagt.  Þarna er. allt tengt við kvikmyndir skiljanlega.  Jafn ólíkum myndum og Shrek og Temirnator voru gerð skil í 4D og með lifandi leikurum.  Fannst reyndar hálf sérkennilegt að Arnold Schwarzenegger look alike'ið var alls ekkert líkur fyrirmyndinni, ansi eitthvað kubbslegur og með myndarlegt perustefni - held að það hefði alveg mátt skerpa aðeins á kröfunum í ráðningarferlinu þarna...

Harry Potter er allt um lykjandi, King Kong, Mummy og Jurassic park svo fátt eitt sé nefnt í Universal ADventure park.   Ég sýndi aðdáunarverða dirfsku í öllum þessum tívolítækjum því það var nú ekki annað hægt.  Þetta snýst allt um þessi tæki !  Sleppti reyndar stóru rússíbönunum en Lárus missti svo sannarlega ekki af þeim.  Sem betur var var tiltölulega rólegt í garðinum og stuttar ráðir víðast hvar.  Ég myndi ekki ráðleggja nokkrum að fara í þessa garða þegar meira er um að vera því þá eyðir maður hreinlega öllum deginum í biðraðir og ég hef allavega ekki þolinmæði í slíkt....

En við fórum ekki heim fyrr en að lokinni flugeldasýningu og 100 ára afmælissýningu á brotum úr því besta sem Universal hefur framleitt.  Það var ótrúlega skemmtilegt en myndirnar voru sýndar á tjaldi sem gert var úr vatni á miðju stöðuvatni sem þarna er. 

Vorum gjörsamlega gengin upp að hnjám þegar við loksins komumst á hótelið - en þá þurfti að raða í töskur og plana morgundaginn....

No comments:

Post a Comment