Friday, January 20, 2017

Pakkað, verslað aðeins í lokin og síðan snemma út á flugvöll!  Alltaf vissara því það getur tekið tíma að skila bílnum og slíkt.

Náðum ótrúlega miklu á þessum hálfa mánuði.  Það hefði verið galið að fara upp vesturströnd Flórída líka eins og mér datt til hugar fyrst.  Er afar þakklát þeim sem með góðum ráðleggingum komu í veg fyrir það.  Við nýttum líka dagana vel og náðum að liggja í sólbaði, lesa bækur og slappa af en líka að skoða og njóta. 

Key West var klárlega toppurinn -alveg einstakt samfélag og virkilega gaman að koma þangað.  Góðar móttökur í Miami og körfuboltaleikur er eitthvað sem gleymist seint.  
Universal studios magnað og fleira mætti telja. 
----------
Þessa daga höfum við verið meira á netinu en áður á ferðum okkar.  Við höfum fylgst með, eins og aðrir, leitinni að Birnu og erum harmi slegin yfir því að ung stúlka skuli hverfa með þeim hætti sem þarna hefur gerst. Þrátt fyrir að við séum búin að vera úti sér maður vel hversu átakanlegt þetta mál hefur verið fyrir þjóðina.  Samhugur og samstaða er styrkur okkar á þessari litlu eyju.   Hugur okkar eins og allra annarra er hjá fjölskyldu og vinum Birnu.

Thursday, January 19, 2017

Í Orlando var ég búin að finna annað hótel en það sem við höfðum verið á fyrstu dagana.  Ánægt með það enda bæði hagstæðara og betra á allan hátt.  Ég er klárlega búin að fá rækilega áminningu um að það borgar sig að skipuleggja sig betur heldur en núna var gert.  En í staðinn þá var þessi rúntur um Flórída ansi spontan sem líka er skemmtilegt  !  !

Eyddum heilum degi í skemmtigarði Universal sem var eiginlega miklu skemmtilegra en ég átti von á.  Fórum fyrst í Universal Studios þar sem meira er gert úr kvikmyndatengingunni.  Þetta er auðvitað alveg einstaklega vel gert og skipulagt.  Þarna er. allt tengt við kvikmyndir skiljanlega.  Jafn ólíkum myndum og Shrek og Temirnator voru gerð skil í 4D og með lifandi leikurum.  Fannst reyndar hálf sérkennilegt að Arnold Schwarzenegger look alike'ið var alls ekkert líkur fyrirmyndinni, ansi eitthvað kubbslegur og með myndarlegt perustefni - held að það hefði alveg mátt skerpa aðeins á kröfunum í ráðningarferlinu þarna...

Harry Potter er allt um lykjandi, King Kong, Mummy og Jurassic park svo fátt eitt sé nefnt í Universal ADventure park.   Ég sýndi aðdáunarverða dirfsku í öllum þessum tívolítækjum því það var nú ekki annað hægt.  Þetta snýst allt um þessi tæki !  Sleppti reyndar stóru rússíbönunum en Lárus missti svo sannarlega ekki af þeim.  Sem betur var var tiltölulega rólegt í garðinum og stuttar ráðir víðast hvar.  Ég myndi ekki ráðleggja nokkrum að fara í þessa garða þegar meira er um að vera því þá eyðir maður hreinlega öllum deginum í biðraðir og ég hef allavega ekki þolinmæði í slíkt....

En við fórum ekki heim fyrr en að lokinni flugeldasýningu og 100 ára afmælissýningu á brotum úr því besta sem Universal hefur framleitt.  Það var ótrúlega skemmtilegt en myndirnar voru sýndar á tjaldi sem gert var úr vatni á miðju stöðuvatni sem þarna er. 

Vorum gjörsamlega gengin upp að hnjám þegar við loksins komumst á hótelið - en þá þurfti að raða í töskur og plana morgundaginn....

Monday, January 16, 2017

Hótelið okkar hér á Miami er ekki með garð en í staðinn eru þau með samning við glæsihótel hér nálægt svo við megum nota sundlaugargarðinn sem þar er.  Nýttum okkur það vel og lengi í morgun. Lárus stakk af öðru hverju og fór á ströndina en ég er að lesa svo ansi skemmtilega bók að ég hreyfði mig ekki ...  Þessi sundlaugargarður er virkilega flottur og nægt pláss fyrir fullt af fólki og allt eins og best verður á kosið - barir, veitingar og allt til alls !

Síðdegis var okkur boðið í skoðunarferð um borgina með Íslendingi sem hér hefur búið í um 20 ár.  Virkilega gaman enda ekki oft sem maður fær leiðsögn staðkunngra um stórborg sem þessa.  Við heimsóttum glæsiíbúðir í háhýsum við ströndina og hin ýmsu hverfi borgarinnar, hvert með sínum brag.  Wyndwood var einstaklega skemmtilegt og þrátt fyrir stærðarmun þá var hugsunin þar svipuð og í verbúðum Reykjavíkur.  Coconut grove er líka afar fallegt og sjarmerandi hverfi en þau eru mörg hér í borg og reyndar fleiri en ég hélt.  Fróðlegur dagur en ekki síst skemmtilegur enda leiðsögumaðurinn ekki af verri endanum :-)

Hér er lífsgæðum manna afskaplega misskipt - hér eru 1500 m2 einbýlishús og 500 m2 blokkaríbúðir fyrir þá sem efni hafa á - sem kosta svipað og Hamarshöllin og jafnvel miklu miklu meira í eigu einstaklinga og ekki örfárra heldur margra !  Síðan eru hér heimilislausir einstaklingar sofandi á götum úti á hverju horni.  Ég hafði á orði í dag að mér fyndust þeir ansi margir og fleiri en í öðrum borgum sem við höfum heimsótt.  Var mér þá bent á þá staðreynd að ef að ég væri heimilislaus þá myndi ég líka vilja vera í Miami.  Hér er heitt allt árið um kring og engin hætta á að verða úti. Sturtur á ströndinni og þægindi sem eru ekki allt árið í öðrum borgum - það eru skýringar á öllu !

Sunday, January 15, 2017

Náðum sólbaði á sundlaugarbakkanum á Fairfield  Key West áður en við lögðum af stað til Miami.  Það er engin spurning að manni langar að koma aftur til Key West.  Wow gerir það reyndar frekar einfalt með ódýru flugi til Miami sem fer að hefjast og svo myndi ég fljúga niður eftir en ekki keyra held ég.  Það er einfaldara að keyra þar sem aksturinn tekur um 4 og hálfan tíma með einhverjum stoppum.   Maður þarf ekki bíl á Key West ef að hótelið er í miðbænum.  Þá dugar reiðhjól fullkomnlega :-)

En við keyrðum beinustu leið til Miami og núna vorum við ekki jafn spennt fyrir útsýninu enda búin að sjá það áður. Ekki alveg einfalt að keyra inn í borgina, sex akreinar í hvora átt, brýr og fráreinar út um allt.  Enda rugluðumst við nokkrum sinnum.  Var dauðhrædd um að enda í Little Haiti hverfinu en það vill maður alls ekki segir gæda bókin góða ! ! !

En  um leið og við komum yfir á South beach varð þetta einfalt enda er gatnakerfi borga í Bandaríkunum svo ótrúlega skipulagt og einfalt.  Um leið og maður veit númer götunnar sem maður er á þá er þetta bara lige ud ad landevejen.  Townhouse hotel er á 20th Street alveg við ströndina.  Fínt hótel.  Röltum á ströndinni síðdegis og dáðumst að skemmtigerðaskipunum sem öll sigldu úr höfn um kl. 18.  Það virðist vera ritúalið þeirra allra.  Enduðum á happy hour á Ritz hótelinu en framundan er kvöldverður einhvers staðar og svo ætlum við að enda kvöldið á ferlega huggulegum rooftop bar sem er hér á hótelinu.

Gistum hér á Fairfield Hotel and suits og fengum the king suit sem var eins gott miðað við hvað við borgum hér fyrir hótelið.  Hef svo ríka samúð með túristum heima sem þurfa að borga um 40.000 sums staðar fyrir hótelherbergið.  Get lofað ykkur að manni finnst það mikið ! ! !   Key West er reyndar afar vinsæll staður og þessi tími er með þeim vinsælli á eyjunum.  Hér er ólíft á sumrin en þá fer hitinn yfir 40 gráður rakinn í 100.  Myndi ekki vilja vera hér þá.   En núna er þetta bara yndislegt. Dýrðlegt sumarveður og brakandi sól.  Hitinn fer hæst í ca. 28 gráður en það finnst mér afar notalegt ...

Byrjuðum daginn á að rölta niður að syðsta punkti USA "Southernmost point".  Á leiðinni skoðuðum við hús og garða og strandlengjuna sem er meiriháttar.  Hér eru svo til eingöngu timburhús í klassískum suðurríkja og karabískum stíl.  Mikil áhrif eru hér frá Kúbu og Bahama en þaðan koma landnemarnir þó að indjánar hafi byggð Keys um aldir.  Key West var löngum stærsti bær á Flórída og sem dæmi má nefna bjuggu hér um 2.600 manns árið 1860 en þá bjuggu 83 í Miami.
Það er afar gaman að því að hér er rík saga og merkileg.  Skipskaðar, sjórán og smygl er inngróið í þjóðasálina og allir frekar stoltir af þessari skrautlegu sögu.

Heimsóttum líka húsið hans Hemingways en þar bjó hann í fjölmörg ár og átti síðan húsið til dauðadags.  Þarna var frábær leiðsögumaður en það gerir Kaninn alveg einstaklega vel.   Þetta eru oftast uppistandarar af bestu gerð sem gera viðfangsefninu góð skil.  Húsið hans Hemingways er troðfullt af köttum sem flestir eru afkomendur Mjallhvítar sem hann átti um 1930 og hafði aukatær.  Í dag eru í húsinu ríflega 50 kettir og um helmingur þeirra með aukatær.  Merkilegt að sjá þá þarna út um allt.   Saga Hemingways er líka skrautleg og skemmtileg þó hún hafi endað með dapurlegum hætti.  Það eykur örugglega depurð að vera giftur fjórum sinnum ! !

Hér verða allir að fara í lest fram og til baka um bæinn og fá upplýsingar um alla hluti.  Það var reyndar afar skemmtilegt og fróðlegt og betra en í mörgum borgum.   En þessi ferð veldur því að nú hugsum við ekki um annað en að koma aftur. Þessi bær er draumur og húsin hér eru mörg alveg meiriháttar.  Kannski ekki skrýtið að þau skuli mörg hver vera í eigu moldríkra og frægra!

Um hálf fimm vorum við komin á Mallory Square þaðan sem maður á að verða vitni að sólarlaginu.  Það svei heldur ekki í kvöld frekar en götulistamennirnir sem fóru á kostum með eld, fjötra og fleira.

Borðuðum í dag í Bahama village market sem er afar skemmtilegur staður og í kvöld á sérlega góðum sjávarréttastað sem heiri Stoned.   Hægt að mæla með þessum báðum.

Saturday, January 14, 2017

Hér er sofnað snemma og vaknað snemma enda þýðir ekkert annað því dagarnir eru eitthvað svo stuttir í annan endann.   Hér sest sólin rétt fyrir kl. 18 og þar með verður aldimmt.  Veitingastaðirnir  loka um kl. 22 og eftir það eru bara barirnir opnir og það er nú frekar lítið spennandi fyrir pæne mennesker sem eru bara tvær á ferð  :-)

Lögðum frekar snemma af stað frá Islamorada þar sem Creekside Inn var hið ágætasta hótel. Byggðin varð sífellt strjállri og minni um sig eftir því sem við fórum lengra út á rifin. Sum staðar bara ein röð af húsum meðfram veginum sitt hvoru megin og síðan hafið  eftir það.  Sums staðar bara tré beggja vegna og sum staðar bara sjórinn og vegurinn.  Óneitanlega svolítið skrýtin tilfinning og virkar eins og maður sé að keyra beint út á opið ballarhafið...

Dóluðum þetta og stoppuðum víða á leiðinni ef við sáum eitthvað sniðugt.  Á einum stað gat maður gefið risa fiskum sem minntu helst á hákarla og stukku þeir uppúr vatninu til að grípa fiskana sem þeim voru réttir.  Vöktu mikla lukku rétt eins og pelikanarnir sem þarna voru út um allt.

Gengum síðan dágóðan spöl eftir "The seven mile bridge"  þeirri eldri sem byggð var 1912.  Það er stranglega bannað að ganga eftir þeirri nýju og hér fer maður eftir reglunum ...
Þessi brú var talin með undrum veraldar og oft sem hið áttunda þegar hún var byggð enda með öllu óskiljanlegt hvernig farið var að því með þeim tólum og tækjum sem þá voru til,  Þarna var fullt af fólki að veiða á stöng af brúnni en það er aðal sportið hér um slóðir.

Komum til Key West síðdegis og röltum um miðbæinn sem er afar skermmtilegur.  Þetta virðist vera einstaklega líflegur og fallegur bær - afar ólíkur öllu öðru hér í Flórída.  Borðuðum á kúbönskum stað í kvöld.  Mér finnst þetta afar gott en Lárus hefur litla þolinmæði gagnvart grænmeti og baunum, hvað þá yuccu og plantain (litlum grænum bönunum) sem tilheyrir oft mat frá Kúbu.

Friday, January 13, 2017

Náðum nokkrum tímum á ströndinni í Vero Beach áður en við lögðum af stað áleiðis til Key West.  Þetta er skrambi langt þannig að við ákváðum að taka þetta í tveimur áföngum.  Keyra eins langt og við nenntum á fimtudeginum og verða þá komin frekar í fyrra fallinu á föstudeginum til Key West sem er syðsti staður USA.  Við keyrðum Florida turnpike hraðbrautina vel niður fyrir Miami og það er í stuttu máli ekkert að sjá á leiðinni.  Skoðuðum reyndar Mel Fisher treasure and wreck safn á leiðinni og það var áhugavert.  Sá ágæti maður eyddi ekki nema 16 ártum ævi sinnar í að leita að flaki galeiðunnar Atocha.  En þegar hann fann hana var það vel þess virði en hann dró þá á land hundruðir kílóa af gulli, silfri og eðalsteinum sem hann fékk að eiga eftir reyndar 12 ára meðhöndlun dómstóla á máli sem Flórída ríki höfðaði á hendur honum enda vildi ríkið eiga fjársjóðinn. Ekki amalegt að eiga fjársjóð :-)
En um leið og maður er kominn niður á rifin þá verður hér áhugaverðara að keyra.  The Florida keys eru löng ræma eyja sem tengdar eru með brúm þannig að hægt er að keyra yfir þær allar.  Eyjarnar eru í raun kóralrif og sum rétt varla nema vegurinn.  Þarna er afskaplega gaman að keyra og ekki síst yfir þessar ofboðslega löngu brýr.  Það er afar sérstakt enda er ekkert í kringum mann á meðan nema hafið og hvergi land nema þessi litlu rif.  Hvarflar óneitanlega að manni umræðan um hækkun sjávarmáls ef áhrif lofslagsbreytinga verða að veruleika. Þarna má líka víða sjá að hús eru byggð á "stultum".  Ágætis lofhæð er undir húsunum og er það rými þá bæði bílskúr og carport og íbúðin ofan á.  Þarna getur án vafa flætt duglega í vondum veðrum og hæð yfir sjávarmáli nær engin í byggðunum. 

Við náðum til Islamorada þarna um kvöldið og fundum ágætis mótel eftir að hafa leitað ráða hjá verslunareiganda við aðalgötuna.   Old Tavernier er fínn veitingastaður sem byggir á sögu smyglara og sjóræningja.  Þar var þjónninn skrafhrifin og lá ekki á skoðunum sínum.  Flest allt þarna eins og annars staðar í Flórída væri í eigu mafíunnar sem rakaði til sín peningum.   Þeir ættu meira að segja vegina og innheimtu þar endalausa vegtolla enda hafði ríkið selt þeim vegina fyrir nokkrum árum.