Hótelið okkar hér á Miami er ekki með garð en í staðinn eru þau með samning við glæsihótel hér nálægt svo við megum nota sundlaugargarðinn sem þar er. Nýttum okkur það vel og lengi í morgun. Lárus stakk af öðru hverju og fór á ströndina en ég er að lesa svo ansi skemmtilega bók að ég hreyfði mig ekki ... Þessi sundlaugargarður er virkilega flottur og nægt pláss fyrir fullt af fólki og allt eins og best verður á kosið - barir, veitingar og allt til alls !
Síðdegis var okkur boðið í skoðunarferð um borgina með Íslendingi sem hér hefur búið í um 20 ár. Virkilega gaman enda ekki oft sem maður fær leiðsögn staðkunngra um stórborg sem þessa. Við heimsóttum glæsiíbúðir í háhýsum við ströndina og hin ýmsu hverfi borgarinnar, hvert með sínum brag. Wyndwood var einstaklega skemmtilegt og þrátt fyrir stærðarmun þá var hugsunin þar svipuð og í verbúðum Reykjavíkur. Coconut grove er líka afar fallegt og sjarmerandi hverfi en þau eru mörg hér í borg og reyndar fleiri en ég hélt. Fróðlegur dagur en ekki síst skemmtilegur enda leiðsögumaðurinn ekki af verri endanum :-)
Hér er lífsgæðum manna afskaplega misskipt - hér eru 1500 m2 einbýlishús og 500 m2 blokkaríbúðir fyrir þá sem efni hafa á - sem kosta svipað og Hamarshöllin og jafnvel miklu miklu meira í eigu einstaklinga og ekki örfárra heldur margra ! Síðan eru hér heimilislausir einstaklingar sofandi á götum úti á hverju horni. Ég hafði á orði í dag að mér fyndust þeir ansi margir og fleiri en í öðrum borgum sem við höfum heimsótt. Var mér þá bent á þá staðreynd að ef að ég væri heimilislaus þá myndi ég líka vilja vera í Miami. Hér er heitt allt árið um kring og engin hætta á að verða úti. Sturtur á ströndinni og þægindi sem eru ekki allt árið í öðrum borgum - það eru skýringar á öllu !
No comments:
Post a Comment