Gistum hér á Fairfield Hotel and suits og fengum the king suit sem var eins gott miðað við hvað við borgum hér fyrir hótelið. Hef svo ríka samúð með túristum heima sem þurfa að borga um 40.000 sums staðar fyrir hótelherbergið. Get lofað ykkur að manni finnst það mikið ! ! ! Key West er reyndar afar vinsæll staður og þessi tími er með þeim vinsælli á eyjunum. Hér er ólíft á sumrin en þá fer hitinn yfir 40 gráður rakinn í 100. Myndi ekki vilja vera hér þá. En núna er þetta bara yndislegt. Dýrðlegt sumarveður og brakandi sól. Hitinn fer hæst í ca. 28 gráður en það finnst mér afar notalegt ...
Byrjuðum daginn á að rölta niður að syðsta punkti USA "Southernmost point". Á leiðinni skoðuðum við hús og garða og strandlengjuna sem er meiriháttar. Hér eru svo til eingöngu timburhús í klassískum suðurríkja og karabískum stíl. Mikil áhrif eru hér frá Kúbu og Bahama en þaðan koma landnemarnir þó að indjánar hafi byggð Keys um aldir. Key West var löngum stærsti bær á Flórída og sem dæmi má nefna bjuggu hér um 2.600 manns árið 1860 en þá bjuggu 83 í Miami.
Það er afar gaman að því að hér er rík saga og merkileg. Skipskaðar, sjórán og smygl er inngróið í þjóðasálina og allir frekar stoltir af þessari skrautlegu sögu.
Heimsóttum líka húsið hans Hemingways en þar bjó hann í fjölmörg ár og átti síðan húsið til dauðadags. Þarna var frábær leiðsögumaður en það gerir Kaninn alveg einstaklega vel. Þetta eru oftast uppistandarar af bestu gerð sem gera viðfangsefninu góð skil. Húsið hans Hemingways er troðfullt af köttum sem flestir eru afkomendur Mjallhvítar sem hann átti um 1930 og hafði aukatær. Í dag eru í húsinu ríflega 50 kettir og um helmingur þeirra með aukatær. Merkilegt að sjá þá þarna út um allt. Saga Hemingways er líka skrautleg og skemmtileg þó hún hafi endað með dapurlegum hætti. Það eykur örugglega depurð að vera giftur fjórum sinnum ! !
Hér verða allir að fara í lest fram og til baka um bæinn og fá upplýsingar um alla hluti. Það var reyndar afar skemmtilegt og fróðlegt og betra en í mörgum borgum. En þessi ferð veldur því að nú hugsum við ekki um annað en að koma aftur. Þessi bær er draumur og húsin hér eru mörg alveg meiriháttar. Kannski ekki skrýtið að þau skuli mörg hver vera í eigu moldríkra og frægra!
Um hálf fimm vorum við komin á Mallory Square þaðan sem maður á að verða vitni að sólarlaginu. Það svei heldur ekki í kvöld frekar en götulistamennirnir sem fóru á kostum með eld, fjötra og fleira.
Borðuðum í dag í Bahama village market sem er afar skemmtilegur staður og í kvöld á sérlega góðum sjávarréttastað sem heiri Stoned. Hægt að mæla með þessum báðum.
No comments:
Post a Comment